Námskeið og fræðsla
Heilaheilsa býður upp á námskeið, vinnustofur og fræðslur fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Námskeiðin henta vel þeim sem vilja læra um heilann og heilaheilsuvænt líf sem og bæta hugræna getu. Flest stéttarfélög niðurgreiða námskeið hjá Heilaheilsu.
Markmið okkar hjá Heilaheilsu er að bæta þjónustu við fólk sem hefur fengið væga heilaáverka, s.s. heilahristing, og fjölskyldur þeirra. Heilaheilsa veitir faglega og gagnreynda meðferð þar sem áhersla er á að nýta nýjustu þekkingu til að efla heilbrigði heilans og stuðla að bata eftir höfuðáverka.
Hjá Heilaheilsu starfar fagfólk sem hefur sérhæft sig í greiningu og meðferð höfuðáverka. Boðið er upp á ráðgjöf, fræðslu, sálfræðimeðferð, líkamsþjálfun.
Netfræðslur og námskeið
Allt um heilahristing og langvarandi einkenni
Rannsóknir sýna að þekking á heilahristingi og skilningur á þáttum sem viðhalda langvarandi einkennum sé lykilatriði í árangursríkri meðferð eftir heilahristing. Námskeiðið byggir á nýjustu rannsóknum í greiningu og meðferð langvarandi einkenna.
Í fræðslunni er m.a. fjallað um:
- Hvað gerist í heilanum við heilahristing?
- Af hverju er ég enn með einkenni?
- Farið er ítarlega í helstu þætti sem viðhalda langvarandi einkennum
- Réttindi eftir heilahristing
- Náin sambönd og kynlíf eftir heilahristing
- Aftur til náms/vinnu/leiks eftir heilahristing
- Svefn eftir heilahristing
- Árangursrík meðferð við langvarandi einkennum
Fræðslan er opin í sex mánuði og getur þátttakandi horft á allt efnið á eigin hraða.
„Námskeiðið var mjög gagnlegt, ekki aðeins fyrir mig heldur einnig fyrir maka minn sem tók þátt. Ég hafði leitað hátt í ár að einhverjum til að aðstoða mig með mín einkenni. Það var því mjög hughreystandi að hlusta á fagaðila telja upp öll þau einkenni sem hafa verið að há mér og fá staðfestingu á því að þau eru eðlileg og hægt sé að vinna sig í gegnum þau.“ – umsögn þátttakanda
Innifalið í verði er einnig meðferðarhandbók við langvarandi heilahristingseinkennum
Fyrirlesari: Dr. Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði. Ólína hefur sérhæft sig í mati og meðferð heilahristingseinkenna
Verð: 19.900
Hugræn endurhæfing/heilaþjálfun
Hugræn endurhæfing (cognitive remediation) er atferlismiðuð sálfræðimeðferð með það að markmiði að efla hugarstarf og auka árangur í daglegu lífi og starfi. Meðferðin felur í sér beina þjálfun hugrænna þátta þar sem notast er m.a. við tölvuforrit. Einnig eru kenndar gagnlegar aðferðir til að hámarka hugarstarf í daglegu lífi. Um er að ræða átta vikna námskeið þar sem hist er vikulega í 90 mínútur í senn. Hver tími byggist upp af verkefnavinnu, umræðum og heilaþjálfun. Þátttakendur koma með spjaldtölvur með sér í meðferðina. Ef þátttakandi á ekki spjaldtölvu til afnota, mun Heilaheilsa skaffa spjaldtölvu sem þátttakandi hefur til afnota á meðan á meðferð stendur.
Meðferðin er einstaklingsmiðuð og því geta allir sótt þessa meðferð, óháð aldri, færni eða hugrænni getu.
Námskeiðið felur einnig í sér fræðslu í formi netfyrirlestra sem þátttakendur kynna sér á milli tíma. Þátttakendur fá aðgang að mínum síðum Heilaheilsu þar sem þeir geta nálgast allt efnið á meðan á námskeiði stendur. Fyrirlestrarnir innihalda fræðslu um efni sem er mikilvægt að þátttakendur þekki vel, þegar markmiðið er að efla hugarstarf. Hver fyrirlestur er um 15- 20 mínútur. Auk þess er ætlast til þess að þátttakendur stundi heilaþjálfun að minnsta kosti 1x í viku í 30-60 mínútur.
Meðferðin hentar öllum þeim sem:
• Vilja efla hugarstarf og læra meira um heilaheilsu
• Eru að glíma við heilaþoku, minnisvanda eða annan hugrænan vanda
• Vilja auka sjálfstraust og trú á eigin hugarstarfi
• Eru á leið aftur á vinnumarkað
• Eru að glíma við þunglyndi, kvíða, geðrofsraskanir, átraskanir eða annan geðrænan vanda
Innifalið í námskeiði:
• Mæling á hugrænni getu. Notast er við rafrænt próf sem þátttakandi fær sent í tölvupósti og tekur fyrir fyrsta tímann. Prófið tekur um 40 mínútur og reynir m.a. á athygli, minni, vinnsluminni og vinnsluhraða. Niðurstöður birtast í ítarlegri skýrslu sem þátttakendur fá afhenta í fyrsta tíma.
• Aðgangur að tölvuforriti í 12 vikur
• Vinnubókin Heilaþjálfun og minnistækni
• Aðgangur að 8 netfyrirlestrum um heilann, hugarstarf, hugrænan vanda, heilaþoku, heilaþjálfun og minnis- og skipulagstækni
Skráning á heilaheilsa@heilaheilsa.is
Heilaþjálfun og minnistækni
Heilaþjálfun með tölvuforritum er árangursrík aðferð til að bæta hugræna þætti, s.s. athygli, einbeitingu, vinnsluhraða, stýrifærni og /eða minni. Námskeiðið hentar öllum þeim sem vilja þjálfa hugræna þætti á markvissan hátt og læra minnis- og skipulagstækni.
Markmið námskeiðs:
- Auka þekkingu á hugrænum þáttum, s.s. athygli, einbeitingu, vinnsluhraða og/eða hvaða hlutverki þeir spila í okkar daglega lífi.
- Auka þekkingu á hugrænum vanda
- Auka þekkingu á eigin hugrænu styrkleikum og veikleikum
- Bæta hugarstarf með þjálfun
- Læra minnis- og skipulagstækni
Innifalið í námskeiði er:
- Mæling á hugrænni getu. Notast er við rafrænt próf sem þátttakandi fær sent í tölvupósti. Prófið tekur um 40 mínútur og birtast niðurstöður í ítalregri skýrslu.
- Aðgangur að tölvuforriti í 12 vikur
- Vinnubókin “Heilaþjálfun og minnistækni”
- Netfræðsla um hugarstarf, heilaheilsu, hugrænan vanda og heilaþjálfun og minnistækni – alls 2 1/2 klst. Þátttakandi hefur aðgang að netfræðslu í 3 mánuði. Fyrirlesari er Dr. Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir sérfræðingur í klínískri sálfræði.
Verð: 26.500
Örnámskeið (60-120 mín)
Henta vel fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Hafðu samband á olina@heilaheilsa.is og við sníðum fræðsluna að ykkar hóp.
Dæmi um efni fræðslu:
- Heilinn og heilaheilsa
- Þjálfun hugans
- Minnis- og skipulagstækni
- Hugrænn vandi
- Heilahristingur
Vinnustofur
Kennari: Dr. Ólína G. Viðarsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði. Ólína hefur haldið vinnustofur um vitræna endurhæfingu víða síðustu ár og aðstoðað við innleiðingu þessa meðferðarforms á ólíkar stofnanir. Fyrir upplýsingar um fyrirkomulag og verð skal hafa samband við Ólínu á olina@heilaheilsa.is.
Vitræn geta og endurhæfing fólks með geðraskanir
Í þessari vinnustofu er lögð áhersla á að fræða þátttakendur um vitrænan vanda í geðröskunum og hvernig sá vandi hefur áhrif á færni í daglegu lífi. Kynntar eru aðferðir vitrænnar endurhæfingar og félagsskilningsþjálfunnar. Kennsla er í formi fyrirlestra, umræðna, verkefna og æfinga.
Truflun á vitrænum þáttum, s.s. athygli, einbeitingu, minni, stýrifærni og félagslegum skilningi er partur af einkennamynd margra geðraskanna og getur haft umtalsverð áhrif á færni í daglegu lífi, samskipti og lífsgæði. Mikill breytileiki er á milli einstaklinga og því er mikilvægt að þekkja ólíkar birtingarmyndir vitræns vanda og leiðir til að bregðast við. Vitræn endurhæfing og félagsskilningsþjálfun eru aðferðir sem byggja á atferlismótun, kennslufræði og hugrænni atferlismeðferð. Markmiðið með vitrænni endurhæfingu er að bæta vitræna þætti varanlega og þannig árangur í daglegu lífi.
Fyrir hvern: Námskeiðið er fyrir fólk með fagmenntun sem starfar með unglingum eða fullorðnu fólki. Eftir vinnustofuna eiga þátttakendur að geta beitt aðferðum vitrænnar endurhæfingar í daglegu starfi.
Hægt er að bjóða þessa vinnustofu sem stað- eða fjarnámskeið. Vinnustofan er alls 7 klukkustundir, sem skiptist upp á einn eða tvo daga.
Innifalið er handbók og glærur.
Félagsskilningur og félagsskilningsþjálfun
Í þessari vinnustofu er lögð sérstök áhersla á að fræða þátttakendur um félagsskilning (social-cognition) og áhrif félagsskilningsvanda á líf og lífsgæði. Einnig eru aðferðir félagsskilningsþjálfunnar kenndar.